Tuesday, August 13, 2013

Hvað viltu verða þegar að þú verður stór?

Þegar að ég var lítil stelpa var ég með það á hreinu. Forsætisráðherra ! Ég þuldi upp alla forsætisráðherra lýðveldisins og aðra ráðherra ef einhver bað. Afi minn tók heilshugar undir þennan draum með mér. Það var ekki fyrr en ég var komin í menntaskóla að ég áttaði mig á því að starfsframinn væri ef til vill ekki fólginn í starfi ráðherrans.

Þegar að ég var í menntaskóla sá ég leikritið "Kæra Jelena" eftir Ljúdmílu Razúmovskaju. Í aðalhlutverkum voru m.a. Baltasar Kormákur og Ingvar Sigurðsson. Leikritið var sett upp í Þjóðleikhúsinu. Leikritið fjallar um kennslukonu sem fær heimsókn frá nemendum sínum. Þegar að líða tekur á leikritið gera nemendur Jelenu lítið úr hugsjónum hennar og hlægja að vonum hennar og draumum. Leikurinn magnast þar til nemendurnir missa stjórn á öllu saman. Ég kom verulega snortin af þessari leiksýningu. Bæði var hún velleikin og veluppsett. Ennfremur er leikritið frábærlega skrifað. Ég man að ég gekk hægum skrefum niðrá Lækjartorg, faldi tár sem læddust niður kinnarnar og snökkti í leið 112 alla leið heim. Þegar að heim var komið var ég harðákveðin.... ég vildi verða leikari !

Þegar að ég útskrifaðist úr Menntaskóla hafði ég skrifað nokkrar ritgerðirnar og fengið vel fyrir.Ég hafði skrifað dagbók frá því ég var 8 ára og ljóð í barnaskóla. Ég skellti mér því í íslensku í Háskóla Íslands. Langaði að læra allt um tunguna okkar, bókmenntir og já jafnvel verða skáld!

Þegar að ég var 25 ára fór ég að vinna hjá tryggingarfélagi. Þar kynntist ég heimi lögfræði og viðskipta og þegar að ég sá nám auglýst sem sameinaði þessa tvo heima ákvað ég að skella mér. Ekki þótti mér verra að námið var á Bifröst því að á þeim tíma þurfti ég að breyta um umhverfi. Þurfti að komast úr 101 og upplifa nýja hluti. Þar fann ég litla lögfræðinginn.

Og núna er ég kennari og langar að verða fræðimaður. Forsætisráðherra - leikari - skáld - lögfræðingur - kennari - fræðimaður. Hvað ætli þessi störf eigi sameiginlegt ? Ég held að ég hafi alltaf viljað snerta fólk, láta eitthvað gott af mér leiða og öll þessi störf hefðu getað stuðlað að því.  Kennslan veitir mér mikla hamingju en ég þarf eitthað meira... hvað það verður veit svo enginn.

1 comment: