Sunday, August 25, 2013

Systratími

Eru ekki systur yndislegar? Mín er allavega dásamleg og sú allra besta. Við höfum alltaf verið bestu vinkonur þrátt fyrir 10 ára aldursmun. Fyrst dröslaðist ég með hana í kerru og þóttist vera mamma hennar en áður en við vissum af vorum við farnar að trúa hvor annarri fyrir leyndarmálum. Nú erum við báðar mæður... stelpumömmur.... og þá er dásamlegt að fá þær mæðgur í heimsókn í klettinn okkar í sleep-over. Elísabet Erla dóttir systur minnar er mikill stuðbolti og elskar að vera með frænkum sínum. Fyrir stuttu komu þær mæðgur til okkar og gistu. Við fórum í göngutúra, berjamó, kínverska skák, fimbulfamb, tókum kósý-kvöld, busluðum í baði, fórum í sund og elduðum dýrindis mat. 

Elísabet Erla og Valý Karen

Þóra Guðrún tekur á móti frænku sinni

Valý Karen að súpa

Stuð í baði

Kínverks skák undirbúin

Nautakjöt á grillinu og allt í gangi

Stuðboltinn mikli

Brunch

Berjamó
Elísabet Erla

Valý Karen

Sunday, August 18, 2013

Skarðsvíkin okkar

Fljótlega eftir að við Einar kynntumst sagði hann mér frá stað, stað sem að hann sagði fallegastan á landinu. Á þessum stað eru svartir hamrar hvíslaði hann, gulur sandur, hvítfrissandi öldur og blár himinn. Ferskt sjávarloftið fyllir vitin og ef heppnin er með okkur sjáum við seli eða stökkvandi fiska. Fuglarnir svífa um og yrðlingar skjótast á milli gjóta. Þessi staður er Skarðsvík á Snæfellsnesi. Einar fór síðar með mig á þennan stað og ég var sammála honum, þetta er fallegasti og rómantískasti staður á Íslandi. Þar sem ég boraði tánum í heitan sandinn og horfði út á haf gat ég ómögulega séð fyrir trúlofun okkar Einars nokkrum árum síðar á þessum sama stað. Við Einar höfum síðan farið amk. eina ferð um Snæfellsnesið á ári frá því að við hófum búskap og alltaf stefnt á Skarðsvík. Eitt sumarið náðum við aðeins í Stykkishólm en annars hefur Skarðsvíkin fengið okkur í heimsókn á hverju ári. Dásamlegri stað vitum við ekki um og í dag fórum við. Skarðsvíkin beið okkar fögur sem aldrei fyrr, blautur sandur og ferskir vindar léku við okkur og sjórinn kítlaði tær dætra okkar. 

Með frumburðinn undir belti - 2007

Herdís María fædd og Þóra Guðrún komin í bumbu - 2008

Skarðsvík í  hífandi roki 2009

Ekki alltaf auðvelt að ná góðri mynd ! - 2010

Trúlofun 2011

Stykkishólmur 2012

Skarðsvík 2013 - Valý Karen mætt 

Wednesday, August 14, 2013

Hvað leynist undir steini?

 Við elskum að fara í fjöruferðir og kíkja undir steinana. Hér eru Herdís María og Einar forvitin í fjörunni forðum daga. 

Hvað leynist undir steini?

Ég elska mat -0,7 kg

Já, ég hreinlega ELSKA mat. Núna er ég t.d. að hugsa um hvað við ættum að hafa í kvöldmatinn. Kíki á uppskriftir á netinu eða fletti uppskriftarbókum. Hallast helst að einhverju með hakki, því ég á nautahakk og fullt af grænmeti í ískápnum. 

En svo er það nú oft þannig að þeir sem ELSKA mat þurfa að passa aukakílóin og nú er ég komin með nett ógeð á aukakílóum meðgöngunnar. Ég ákvað því að taka til í mataræðinu (enn og aftur). Ég hef verið slæm í nára svo hreyfingin er af skornum skammti og því skiptir mataræðið enn meira máli.  Það getur verið erfitt að finna sér eitthvað gott að borða þegar að brauðið er á "bannlista" (nema spari). Í morgun fékk ég mér boozt með berjum og skyri og mér finnst mjög gott að starta daginn þannig. Ég borða svakalega mikið af ávöxtum og grænmeti. 

Núna var ég að enda við að klára hádegismatinn og fékk mér gómsætt túnfisksallat smurt ofan á gæðaskinku. Svo rúlla ég skinkunni upp, nomm nomm.  Í desert er svo kaffibolli, bragðbættur með möndlu og súkkulaðikaffi.  

Uppskrift af túnfisksallati:

1 dós túnfiskur í vatni
250 gr. kotasæla
3 egg (1 með rauðunni, 2 án hennar)
1/4 agúrka skorin smátt
smá rauðlaukur smátt skorinn
Salt og pipar

Stundum set ég epli líka eða skipti túnfisknum út fyrir skinkubita. 

Ég hef misst 0,7 kg. og mun þreyta ykkur með niðurtalningu eitthvað áfram enda er góður matur og góð heilsa eitthvað sem gerir mig afskaplega hamingjusama. Ef að ég elda eitthvað gott í kvöld læt ég ykkur vita. 


Tuesday, August 13, 2013

Sveppaferð

Stokkið  yfir polla

Í loftköstum

Falleg náttúran

Í mosanum leyndust sveppir

Ferskt loftið ...

Systurnar 

Mæðgur

Berjablá

Hvað viltu verða þegar að þú verður stór?

Þegar að ég var lítil stelpa var ég með það á hreinu. Forsætisráðherra ! Ég þuldi upp alla forsætisráðherra lýðveldisins og aðra ráðherra ef einhver bað. Afi minn tók heilshugar undir þennan draum með mér. Það var ekki fyrr en ég var komin í menntaskóla að ég áttaði mig á því að starfsframinn væri ef til vill ekki fólginn í starfi ráðherrans.

Þegar að ég var í menntaskóla sá ég leikritið "Kæra Jelena" eftir Ljúdmílu Razúmovskaju. Í aðalhlutverkum voru m.a. Baltasar Kormákur og Ingvar Sigurðsson. Leikritið var sett upp í Þjóðleikhúsinu. Leikritið fjallar um kennslukonu sem fær heimsókn frá nemendum sínum. Þegar að líða tekur á leikritið gera nemendur Jelenu lítið úr hugsjónum hennar og hlægja að vonum hennar og draumum. Leikurinn magnast þar til nemendurnir missa stjórn á öllu saman. Ég kom verulega snortin af þessari leiksýningu. Bæði var hún velleikin og veluppsett. Ennfremur er leikritið frábærlega skrifað. Ég man að ég gekk hægum skrefum niðrá Lækjartorg, faldi tár sem læddust niður kinnarnar og snökkti í leið 112 alla leið heim. Þegar að heim var komið var ég harðákveðin.... ég vildi verða leikari !

Þegar að ég útskrifaðist úr Menntaskóla hafði ég skrifað nokkrar ritgerðirnar og fengið vel fyrir.Ég hafði skrifað dagbók frá því ég var 8 ára og ljóð í barnaskóla. Ég skellti mér því í íslensku í Háskóla Íslands. Langaði að læra allt um tunguna okkar, bókmenntir og já jafnvel verða skáld!

Þegar að ég var 25 ára fór ég að vinna hjá tryggingarfélagi. Þar kynntist ég heimi lögfræði og viðskipta og þegar að ég sá nám auglýst sem sameinaði þessa tvo heima ákvað ég að skella mér. Ekki þótti mér verra að námið var á Bifröst því að á þeim tíma þurfti ég að breyta um umhverfi. Þurfti að komast úr 101 og upplifa nýja hluti. Þar fann ég litla lögfræðinginn.

Og núna er ég kennari og langar að verða fræðimaður. Forsætisráðherra - leikari - skáld - lögfræðingur - kennari - fræðimaður. Hvað ætli þessi störf eigi sameiginlegt ? Ég held að ég hafi alltaf viljað snerta fólk, láta eitthvað gott af mér leiða og öll þessi störf hefðu getað stuðlað að því.  Kennslan veitir mér mikla hamingju en ég þarf eitthað meira... hvað það verður veit svo enginn.

Monday, August 12, 2013

Stelpumamma

Ég eignaðist litla stúlku þann 22. maí sl. þriðja barnið mitt og þriðju stúlkuna. Ég er og verð stelpumamma, við mæðgurnar tengjumst allar órjúfanlegum böndum. Við dönsum, perlum, liggjum í grasinu og búum til skýjamyndir, tínum sveppi, búum til blómakransa, grátum yfir bíómyndum, lesum bækur og svo ótalmargt fleira. Að eignast þriðju stúlkuna var svo eðlilegt fyrir mér að mér brá ekki vitundarögn þegar að ég vissi að ég gengi með stúlku. Ég brosti bara út í annað, hamingjan fyllti hjartað mitt. 
Ég með HM
Ég með ÞG 
Ég með VK
Dætur mínar eru fæddar  14. september, 31. desember og 22. maí. Skrýtið..... maður veit ekki fyrirfram hvaða dagsetningar verða mikilvægustu dagsetningarnar í lífi manns.  Afmælisdagar barna sinna..... 

Ég og Herdís María
Ég og Þóra Guðrún 
Ég og Valý Karen

Hamingjublogg??

Af hverju að blogga? Já, ég spyr mig. Ég gæti kennt fæðingarorlofinu um en skýringin er líklega sú að mitt týnda, innra skáld vill komast út. Eða á ég að segja týndi listamaður? Ég hef nefninlega mikinn áhuga á ljósmyndun og langar að þreifa aðeins fyrir mér í því. Ég hef gaman af því að gera lífið fallegra hvort sem er með máli eða myndum. Ég hef allavega sett mér eitt markmið með þessu bloggi og það er að skrifa um það sem gerir mig hamingjusama, hvort sem það er fjölskyldan, hönnun, góður matur, ljósmyndun eða gamlir kallar með hatta.

Ég fékk meðfylgjandi mynd senda í tölvupósti á dögunum frá Þórsteini frænda mínum. Hún er tekin sumarið 1977 en þá bjó ég ásamt foreldrum mínum í Svíþjóð. Já maður var nú krútt á þessum árum.