Tuesday, October 28, 2014

Fjöruferð

Enn ein fjöruferðin á dagskrá. Við lögðum af stað í björtu og ætluðum í skelja og steinaleit í fjöruborðinu. Við villtumst aðeins af leið en fundum loksins fallega litla fjöru sem við höfðum ekki komið í áður.




Allir voru í stuði og til í að finna fallega skeljar, jafnvel krossfiska og ígulker ef heppnin yrði með okkur.


Ekki var annað hægt en að dást að fallegu sólarlagi.



Kuldinn beit aðeins í og sumir þurftu mömmu til að hughreysta sig.

Foreldrunum leist nú samt ekki alveg nægilega vel á fjöruna. Drullan var mikil og dæturnar voru nú ekkert alveg á því að hlýða foreldrunum og óðu drulluna galvaskar. En þá kárnaði gamanið. Drullan var svo þétt í sér að erfitt var að komast ferðar sinnar.







Pabbinn óð að sjálfsögðu drulluna að hnjám og bjargaði heimasætunum úr frekari ógöngum. Þær voru hins vegar orðnar heldur kaldar og þáðu mömmunudd þegar að í bílinn var aftur komið. Á leiðinni heim sögðum við hvort öðru rökkursögur (léttari útgáfan af draugasögum) og þegar að heim kom beið heitt bað þeirra sem vildu og pizzunni fagnað af svöngum mallakútum.

Þóra Guðrún náði að tína nokkrar skeljar og steina áður en allt fór á versta veg og útsýnið var óviðjafnanlegt... ferðin var því velheppnuð þrátt fyrir allt.