Friday, November 22, 2013

Sögur

Ég elska sögur. Sögur gera mig hamingjusama. Dramatískar sögur, rómantískar sögur, spennusögur... já jafnvel hryllingssögur og ævisögur. Frá því að ég man eftir mér hef ég sagt sögur, ímyndað mér sögur og skrifað sögur. Stundum ímynda ég mér að líf mitt sé ein stór saga. Hvað vil ég að gerist næst! En ég veit að ég fæ ekki öllu ráðið. Ég skrifa ekki sögu mína ein með sjálfri mér. 

Ég uppgötvaði helst til seint að samferðafólk mitt skrifar með mér sögu mína. Því skiptir máli að vanda valið hverja maður umgengst og koma vel fram við aðra. Ég er heppin að eiga góða fjölskyldu sem ég rækta. Ég er í nánu sambandi við foreldra mína og systkini, tengdaforeldra, frænkur og frændur, ættarsögu mína skrifa ég með þeim. Ég hef einnig, í gegnum tíðina, lagt mig fram um að rækta vinasambönd og í seinni tíð hef ég lært að gera minni kröfur til vina minna og umgengst þá vini sem gera mig glaða og hamingjusama. Þeir vinir eiga sér stað í hjarta mínu. Og svo eru það vinirnir sem þarf varla að rækta, alltaf þegar að ég tek upp tólið og hringi í þá, þá er eins og ekkert hafi breyst og tíminn hafi staðið í stað. 

Sögur hafa að mörgu leyti gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag. Ég las mikið sem barn og datt inn í aðra veröld á hverju kvöldi. Hlakkaði til að leggjast undir sæng með góða bók. Ævintýrabækurnar, Fimmbækurnar, Nancybækurnar, Dularfullubækurnar, ævintýraheimur Narníu og síðar ástarsögur, Ísfólkið og sögur frá tímum Neanderdalsmannsins færðu mér nýjar víddir, ég upplifði aðra heima. Máttur sögunnar er mikill. 

Síðar fór ég að lesa bækur sem komu mér í skilning um hvað það er að vera manneskja. Hlutirnir voru ekki lengur svartir og hvítir heldur grátóna. Enginn er algóður né alvondur... enginn er fullkominn. Bækur Haldórs Laxness, Þórbergs, Paulo Coelho, Allende, Kundera, Dostoevsky ofl. Ég drakk hverja blaðsíðu í mig. Mig þyrsti í að finna sannleikann, út á hvað lífið gengi. 

Í seinni tíð hef ég lesið margar ævisögur. Þær hafa sumar snert mig mikið. Raunveruleikinn getur oft snert mann meira en skáldskapurinn. Fyrsta ævisagan sem ég las og jafnvel sú besta var Dagbók Önnu Frank. Næsta saga sem mig langar að lesa er byggð er á raunverulegum atburðum og heitir Sigrún og Friðgeir - ferðasaga. Þetta er saga úr síðari heimsstyrjöldinni sem snertir marga ólíka þætti í sögu Íslands á 20. öld, en inn í hana fléttast einnig atburðir úr sögu bandarísks samfélags. Friðgeir og Sigrún voru ung hjón sem fóru til Bandaríkjanna að læra læknisfræði en farast ásamt börnum sínum á leið sinni heim til Íslands. Þegar ég var lítil var mér sagt að börn Sigrúnar og Friðgeirs gengu aftur. Amma mín þekkti ættingja þeirra og einn þeirra sagðist hafa leikið sér við börnin eftir að þau létust. Ég sat oft í lokrekkjunni hjá ömmu og afa og hugsaði til þessara hjóna og barna þeirra, hvernig þau misstu næstum því af skipinu Goðafossi en náðu í tíma til þess eins að farast. Hugsaði um þau á þilfarinu, brosandi með vindinn í hárinu, því þau voru á heimleið. 

Hvernig endar mín saga? Mig langar til að hún endi vel. Endi þannig að ég og samferðafólk mitt sé sátt. Langar að sjá og faðma barnabörnin mín. Fyllast gleði yfir afrekum og lífi dætra minna. Langar að við Einar leiðumst yfir móðuna miklu. En vonandi er saga mín ekki hálfnuð. Ég vona að á leið minni verði margt á vegi mínum og að hver og ein varða færi mig nær innri fjársjóði.  Vona að ég fylgi draumum mínum, láti gott af mér leiða og hjartað ráði ætíð för. 

1 comment:

  1. Falleg orð og þörf áminning. Njóttu lífsins ��

    ReplyDelete